Sviðslistahópurinn 16 elskendur er samstarf listamanna úr ólíkum geirum, leiklist, myndlist, tónlist, danslist og gjörningalist. 16 elskendur setja upp sýningar þar sem mörk hefðbundinna leiksýninga eru máð og þannig látið reyna á mæri raunveruleika og sýningar. Í efnistökum sínum leitast 16 elskendur við að prófa og teygja orðræðu líðandi stundar og bjóða áhorfendum í „tilraunastofu“ þar sem þeirra eigið samfélag, hugsjónir og gildi eru krufin, þar sem áhorfendur og leikendur skoða samsetningu þjóðfélagsins í sameiningu.

16 elskendur hafa sýnt verk sín á Listahátíð í Reykjavík og á alþjóðlegu leiklistarhátíðinni Lókal, auk þess sem hópurinn hefur tekið þátt í samstarfi við Þjóðleikhúsið, Þjóðmenningarhúsið og nú síðast Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands. 16 elskendur voru tilnefnd til tveggja Grímuverðlauna árið 2012; leikskáld ársins og sproti ársins, fyrir leiksýninguna Sýning ársins, og hlutu verðlaunin fyrir sprota ársins.

Aðferðafræði 16 elskenda byggir á hugmyndinni um beint lýðræði og eru verkin alltaf unnin í þverfaglegri vinnustofu án þess að eiginlegur leikstjóri eða höfundur komi við sögu.


Aðalbjörg Árnadóttir

_MG_9354.jpg

Aðalbjörg Árnadóttir útskrifaðist árið 2005 frá leikarabraut Leiklistardeild Listaháskóla Íslands. Hún hefur m.a. leikið í uppsetningum Borgarleikhússins á Gosa, Gítarleikurunum og Líki í óskilum. Þá hefur Aðalbjörg starfað með fjölda sjálfstæðra leikhópa, t. a. m. leikið í sýningunum Súldarsker, Grease, Ufsagrýlur, Jöklar, Footloose, Sýning ársins og Hættuför í Huliðsdal. Einnig hefur hún leikið í sjónvarpsþáttum, útvarpsleikritum og stuttmyndum. Aðalbjörg er meðlimur í leikhópunum 16 elskendur, Áhugaleikhús atvinnumanna og Soðið svið. Aðalbjörg starfaði hjá Leikfélagi Akureyrar frá 2012-2014.  Þar leik hún meðal annars í Leigumorðingjanum, Sek, Kaktusnum og Gullna hliðinu. 


Brynja Björnsdóttir

 

Brynja Björnsdóttir útskrifaðist frá Myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2008 með B.A. gráðu í myndlist og með mastersgráðu í leikmyndahönnun frá The Royal Central School of Speech and Drama árið 2013.

Meðal verka sem hún hefur hannað eru Allt sem er frábært, Kartöfluæturnar, Extravaganza, Hannes og Smári, Illska, Ekki hætta að anda, Gaukar, Bláskjár og Hús Bernhörðu Alba sem sýnd voru í Borgarleikhúsinu. Skrattinn úr sauðarleggnum, Hættuför í Huliðsdal, Glymskrattinn og Kameljón sem sýnd voru í Þjóðleikhúsinu. Hans Blær,  Fyrirlestur um eitthvað fallegt, Petra, Súldarsker og Eftir lokin sem sýnd voru í Tjarnarbíó. Núnó og Júnía og Sjeikspír eins og hann leggur sig sem sýnd voru hjá Leikfélagi Akureyrar. Brynja var tilnefnd til Grímuverðlauna fyrir leikmynd ársins fyrir Súldarsker.

brynjabjorns.com

 

 

 

 

 


Davíð Freyr Þórunnarson 

_MG_9543.jpg

 

 

Davíð Freyr Þórunnarson útskrifaðist sem leikari vorið 2007 úr Film/Teaterskolen Holberg í Kaupmannahöfn og með MA í menningarstjórnun frá Háskólanum á Bifröst  í byrjun árs 2015.

Davíð hefur tekið þátt í hinum ýmsu verkefnum á leiksviði, í útvarpi, sjónvarpi og bíó.  Mætti þar nefna kvikmyndirnar Bjarnfreðarson, Órói ogþthe Calculator, sjónvarpsseríurnar Réttur og Hversdagsreglur auk fjölda sjónvarpsauglýsinga og öðru efni fyrir sjónvarp hérlendis sem erlendis. 

Davíð hefur að auki verið að hasla völl bakvið tjöldin og framleitt sviðslistaverk með nokkrum af helstu sviðslistahópum landsins og ber þar að nefna: Þær spila blak eftir Díó, Þórberg eftir Edda Productions, Kæra Manneskja eftir Völu Rúnarsdóttur, Endastöð-Upphaf eftir Lab Loka og Hans Blævi eftir Eirík Nordahl og Óskabörn Ógæfunnar. 

 


Eva Rún Snorradóttir

 

Eva Rún Snorradóttir útskrifaðist með B.A gráðu í Leiklist – fræði og framkvæmd frá Listaháskóla Íslands vorið 2008. Eva Rún er ein af stofnendum og listrænum stjórnendum Framandverkaflokksins Kviss búmm bang, en jafnframt er hún meðlimur í sviðslistahópnum 16 elskendur. Heimsendir fylgir þér alla ævi, fyrsta ljóðabók hennar kom út haustið 2013. 

 


Friðgeir Einarsson

Friðgeir Einarsson starfar sem leikari, leikstjóri og höfundur. Friðgeir útskrifaðist frá leiklistardeild Listaháskóla Íslands árið 2008 með B.A. gráðu í fræði og framkvæmd. Hann hefur síðan unnið sjálfstætt og í samstarfi við nokkra sjálfstæða leikhópa, t.a.m. leikhópana Ég og vinir mínir og 16 elskendur. Undanfarin ár hefur Friðgeir tekið þátt í sýningum á borð við Húmanímal, Verði þér að góðu, Nígeríusvindlinu og Ókyrrð, sem og leikið í sjónvarpsþáttunum Heimsendi. Nýjasta einstaklingsverk Friðgeirs, Ekkert, var sýnt á Sequences hátíðinni í Reykjavík 2011 og fól í sér útgáfu bókarinnar Leiðarvísir til handa leikmönnum um merkingarhraðal. Friðgeir er jafnframt með B.A. gráðu í íslensku frá Háskóla Íslands.

http://www.fridgeireinarsson.com/


Gunnar Karel Másson

Gunnar Karel Másson fæddist 1984 í Reykjavík. Snemma hóf hann tónlistarnám og hefur hann spilað á mörg mismunandi hljóðfæri. Sem tónskáld einbeitir Gunnar sér fyrst og fremst að kammertónlist, þar sem honum finnst tónlistin fá þá athygli sem að hún þarfnast. Gunnar Karel hefur séð um tónlist og hljóðmynd í ýmsum uppfærslum. Má þar á meðal nefna; Imrpovised history of the world, Gangverkið, Þrettándakvöld, Homo Absconditus, Nígeríusvindlið, Munaðarlaus, Fjöltengi og 2 pólskumælandi Rúmenar. Fyrir utan tónsmíðarnar þá hefur Gunnar einnig haslað sér völl sem tónleikahaldari. Sérstaklega má nefna Sonic hátíðina í Kaupmannahöfn, sem hann setti á laggirnar ásamt Filip C. de Melo árið 2012. Gunnar er jafnframt einn af listrænum stjórnendum tónleikaraðarinnar Jaðarber í Reykjavík og meðlimur í DKF, leikhópnum 16 elskendur og S.L.Á.T.U.R.

 

http://www.gkarel.net/

 

 


Hlynur Páll Pálsson

 

 

Hlynur Páll Pálsson útskrifaðist með B.A. gráðu í leiklist, Fræði og framkvæmd, frá Leiklistardeild Listaháskóla Íslands árið 2009. Hann var ráðinn til Borgarleikhússins sem sýningarstjóri strax eftir útskrift og sýndi útskriftarverkið sitt Homo Absconditus á Alþjóðlegu leiklistarhátíðinni Lókal sama ár. Hlynur hefur verið aðstoðarleikstjóri í fjölmörgum sviðsetningum Borgarleikhússins undanfarin ár, auk þess sem hann hefur leikstýrt tveimur sýningum; einleiknum Ellý alltaf góð eftir Þorvald Þorsteinsson og sýningunni Fjöltengi, með leikhópnum homo ludens, sem sýnd var á Bifreiðastöð Íslands (BSÍ), á artFart sviðslistahátíðinni árið 2010. Hlynur var framkvæmdastjóri Reykjavík Dance Festival árið 2014 og starfaði sem leikstjóri Götuleikhúss Hins Hússins sumrin 2012 og 2013. Undanfarin fjögur ár hefur Hlynur starfað sem listrænn ráðunautur og fræðslustjóri Borgarleikhússins.


Karl Ágúst Þorbergsson 

Karl Ágúst Þorbergsson útskrifaðist með BA gráðu frá sviðshöfundabraut Listaháskóla Íslands árið 2008 og með MA gráðu frá Institut für Kunst im Kontext við Universität der Künste í Berlín. Karl Ágúst er einn af stofnendum sviðslistahópsins 16 elskendur en vinnur að samaskapi að sjálfstæðum sólóverkum og sem leikstjóri og dramatúrg. Karl Ágúst starfar ennfremur sem lektor og fagstjóri sviðshöfundabrautar Listaháskóla Íslands.


Ragnar Ísleifur Bragason 

Ragnar Ísleifur Bragason fæddist í Reykjavík. Hann útskrifaðist frá sviðshöfundarbraut Listaháskóla Íslands. Árið 2008 gaf hann út ljóðabókina Á meðan. Hann hefur unnið með ýmsum leikhópum t.a.m. Vaðal, Kriðpleir og 16 elskendum. Undanfarin ár hefur hann meðal annars tekið þátt í sýningunum Var það gangári, Eyjaskegg, Blokk, Tiny Guy, Síðbúin rannsókn Krísufundur, Ævisaga einhvers, Nígeríusvindlinu og Sýningu ársins. Hann frumsýndi einleikinn Gamall haustið 2018. Ragnar hefur gaman af lífinu og tilverunni og á son og dóttur sem hann fílar mjög vel.


Saga Sigurðardóttir

Saga Sigurðardóttir útskrifaðist sem danshöfundur frá hollenska listaháskólanum ArtEZ árið 2006 og hefur síðan starfað sjálfstætt sem dansari og danshöfundur með ýmsum listamönnum og flokkum bæði hérlendis og víðar um Evrópu. Auk þess að vera elskandi var Saga einn meðlima í sviðslistahópnum Ég og vinir mínir og starfar nú jafnframt með listakollektífinu Marble Crowd. Sem performer og samverkakona hefur hún ruglað reitum við ótal listamenn þvers og kruss um listfögin, komið fram með tónlistar- og myndlistarkonunni Peaches, með alþjóðlegu kompaníi Alexöndru Bachzetsis (Sviss) og er meðlimur í performans-bandinu The PPBB,  

Saga lauk meistaranámi í sviðslistum frá LHÍ 2017 og ber einnig BA-gráðu í guðfræði frá Háskóla Íslands. Hún hefur um árabil verið reglulegur gestakennari við Sviðs- og Tónlistardeildir LHÍ og við LungA-lýðháskólann á Seyðisfirði. Síðan 2010 hefur Saga verið stjórnarmeðlimur Reykjavik Dance Festival og Samtaka um danshús.


Ylfa Ösp Áskelsdóttir

Ylfa Ösp Áskelsdóttir útskrifaðist vorið 2007 úr Film og Teaterskolen Holberg í Kaupmannahöfn. Eftir útskrift gekk hún til liðs við 16 elskendur og hefur unnið með þeim sýningarnar ÍKEA-ferðir, Nígeríusvindlið – verk-í-vinnslu, Nígeríusvindlið og Sýningu ársins. Ylfa útskrifaðist með B.Ed. gráðu í grunnskólakennarafræðum frá Háskóla Íslands árið 2011. Hún starfar sem leiklistarkennari í Hlíðaskóla og einnig hjá Kramhúsinu í Reykjavík. Ylfa hefur leikið í útvarpsleikhúsi og auglýsingum.