Leitin að tilgangi lífsins er ný sýning eftir 16 elskendur þar sem áhorfendum býðst einstakt tækifæri til að mæta sjálfum sér á Smáratorgi. Hópurinn hefur tekið yfir húsnæði gömlu Læknavaktarinnar og býður áhorfendum að koma í heildrænt upplifunarferli þar sem markmiðið er að komast í snertingu við kjarna tilverunnar og taka hann föstum tökum. Hvað vill maðurinn? Af hverju gerum við það sem við gerum? Er á meðan er. Við erum við.
Ljósmyndir eftir Björn Snorra Rosdahl
MINNISVARÐI // MONUMENT
16 elskendur kynna nýtt verk um sjónarspilið, ástina og samfélög mannanna.
Minnisvarði er nýtt verk eftir 16 elskendur þar sem tekist er á við mikilvægi sjónarspilsins innan nútíma samfélags. Á undanförnum áratug hefur framsetning á hversdagslegu lífi einstaklingsins verið gert að stórfenglegu sjónarspili og rík áhersla lögð á möguleika hvers og eins á að skara fram úr á sínum eigin hversdagslegu forsendum. Hið persónulega rými, helsta puntstrá vestrænna samfélaga, liggur nú á gapastokknum. Tilvist mannsins er ógnað af minnisvarða hennar sjálfs. Munum: Jörðin er sléttari en billjardkúla.
Listræn stjórn: Karl Ágúst Þorbergsson
Leikmynd og búningar 16 elskenda: Brynja Björnsdóttir og hópurinn
Búningar: Una Stígsdóttir
Tónlist: Gunnar Karel Másson
Ljósahönnun: Ólafur Ágúst Stefánsson
Sýningarstjórn: Þorbjörn Þorgeirsson
Framkvæmdastjórn: Hlynur Páll Pálsson
Sviðslistaviðburðurinn Sýning ársins var könnun sviðslistahópsins 16 elskenda á áhrifum skoðanakannanna í íslensku samfélagi, en um leið innleitin rannsókn á tengslum almennings við leikhúsið og væntingum til þess. Hvað vilt þú sjá í leikhúsi? Hvað vilja konur helst sjá? En karlar? Vilja vinstri grænir og sjálfstæðismenn sjá það sama? Hvað vilja Íslendingar að meðaltali ekki sjá? Ert þú meðalmaður? Sviðslistahópurinn 16 elskendur lét framkvæma ítarlega skoðanakönnun, í samstarfi við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands, þar sem spurt var hvað fólk vildi helst og síst sjá á leiksviði. Niðurstaða skoðanakönnunarinnar var grunnurinn að handriti fyrir sviðslistaviðburðinn Sýningu ársins, þar sem 16 elskendur vörpuðu ljósi á væntingar íslesnskra leikhúsáhorfenda til leikhússins, en um leið var viðburðurinn nýttur til að fara ofan í saumana á meðaltalinu, lýðræðinu og áhrifum skoðanakannana á samfélagið sem heild. Sýning ársins var frumsýnd 4. mars árið 2012 í Rúgbrauðsgerðinni við Borgartún.
Nígeríusvindlið er sviðslistaviðburður þar sem tekin er til umfjöllunar hugmyndin um réttlæti í víðu samhengi. Sýningin er afrakstur rannsóknarvinnu sviðslistahópsins 16 elskenda, en viðfangsefni rannsóknarinnar var stafræn fjárplógsstarfsemi sem starfrækt er frá Vestur-Afríku. 16 elskendur söfnuðu saman svindlbréfum og svöruðu þeim undir dulnefni í því augnamiði að kynnast svindlurunum, búa til texta og rannsaka viðfangsefnið til hlítar. Eftir margra mánaða tölvupóstsamskipti við svindlara um heim allan höfðu 16 elskendur safnað nægilega miklu efni til að sviðsetja sýninguna Nígeríusvindlið. Útkoman varð að tveimur ólíkum sýningum þar sem tekið var á listinni að svindla, íslenska bankakerfinu, sápuóperum og hvatningarræðum svo fátt eitt sé nefnt. Sýningarnar voru báðar sýndar í Kassanum, Þjóðleikhúsinu.
Orbis Terræ – ORA var sviðslistaviðburður sem sýndur var í Þjóðmenningarhúsinu á Listahátíð Reykjavíkur árið 2009. Hið virðulega Þjóðmenningarhús – tákn fyrir íslenskt lýðræði og sjálfstæði – varð að vettvangi stríðssirkúss, flóttamannabúða og leikhúss, þar sem tekið var á botnlausu helvíti skriffinskunnar, stöðu konunnar í nútímasamfélagi, stríði og friði. Margrét Vilhjálmsdóttir, leikkona og listrænn stjórnandi, fór fyrir hópi um 60 listamanna sem leiddi gesti Þjóðmenningarhússins um gjörning um landamæri og skrifræði og leiksýningu um stríðsmenningu.
Leikrit eftir Hrund Gunnsteinsdóttur
Leikstjórn: Margrét Vilhjálmsdóttir
Listræn stjórn: Margrét Vilhjálmsdóttir og 16 elskendur.
Frumsýnt í Þjóðmenningarhúsinu 16. maí 2009.
Ferðastu í kringum heiminn fyrir kr. 1.990.
Í aðdraganda efnahagshrunsins árið 2008 var rýrnun krónunnar farin að hafa áhrif á neysluvenjur þjóðarinnar. Ferðaskrifstofan ÍKEA ferðir var sett á fót til að koma til móts við óslökkvandi ferðaþorsta Íslendinga; boðið var upp á heimsreisu, 100% hreina upplifun, án þess að fara út fyrir hússins dyr.
Í iðnaðarhúsnæði við Grandagarð innréttuðu 16 elskendur sína útgáfu af heiminum og buðu gestum með sér í ferðalag. ÍKEA ferðir var óhefðbundin leiksýning þar sem áhorfendur tóku virkan þátt í framgangi sýningarinnar. ÍKEA ferðir byggði á rannsókn 16 elskenda á samfélaginu í aðdraganda efnahagshruns, haustið 2008; á upplifunarorðræðu, krepputali, hnattvæðingu, steríótýpum og fordómum.
Ferðaskrifstofan ÍKEA ferðir var opnuð í september 2008 og var eitt fyrsta fyrirtækið sem fór á hausinn í hruninu.
Sextán elskendur opna nýtt útibú ÍKEA ferða í Færeyjum sem hluti af Norrænum sviðlistadögum 24.-28 maí 2016.